Verktakagreiðslur

31.12.2023

Giggó er markaðstorg fyrir gigg þar sem notendur semja sín á milli um kaup og sölu á þjónustu. Annars vegar eru notendur sem við köllum giggara, sem er bara alþýðlegra orð yfir verktaka. Hins vegar höfum við fólk sem auglýsir gigg, verkkaupa sem greiðir umsamda upphæð fyrir giggið.

Við hvetjum alla giggara til að telja fram aukapeninginn sem þau afla sér í gegnum Giggó í samræmi við gildandi lög og reglur. Fyrir vaska verktaka sem ætla að gera gigg að góðri tekjulind gæti verið gott að byrja á að setja inn smáauglýsingu á Giggó og finna traustan og ráðagóðan endurskoðanda.

Er hægt að gigga skattfrjálst?

Já, ef þú tekur ekkert fyrir giggið þá þarf ekki að greiða tekjuskatt. Engar tekjur, enginn skattur. Það er ekki útilokað að til séu giggarar sem einfaldlega vilja afla sér reynslu eða langar að láta gott af sér leiða án þess að taka neitt fyrir. Flest vilja þó fá eitthvað fyrir sinn snúð. Og því meira sem þú giggar og því meiri aukatekjur sem þú hefur af íhlaupastörfum – því mikilvægara er að hafa sitt á hreinu.

Greiðsla fyrir gigg flokkast alltaf sem verktakagreiðsla og er skattskyld sem slík. Skatturinn flokkar verktaka í tvo hópa giggara; þau sem gigga fyrir minna en tvær milljónir innan ársins og hin sem gigga fyrir meira en tvær millur á ári.

Minna en 2.000.000 kr. á ári

Þeim sem gigga bara af og til og hafa af því óverulegar tekjur dugir að fylla út viðeigandi reiti á framtalinu sínu. Ef innkoma þín af aukavinnunni fer ekki yfir 2.000.000 kr. á 12 mánaða tímabili þá þarft þú ekki að innheimta virðisaukaskatt. Þú þarft engu að síður að greiða skatt af þessum aukatekjum. Sennilega falla flestir giggarar í þennan flokk — en í guðanna bænum: Haltu vel utan um reikninga og gögn vegna starfseminnar.

Þegar giggin fara að hala inn meira á ársgrundvelli þá fer bókhaldið að skipta enn meira máli. Þá þarf að skrá sig hjá Skattinum, redda endurskoðanda og fá virðisaukaskattsnúmer. Fyrir þau ykkar sem langar að gerast atvinnugiggarar þá er ráð að kynna sér vel leiðbeiningar Skattsins um VSK fyrir byrjendur.

Meira en 2 milljónir á ári

Fari verktakagreiðslur yfir tvær milljónir á ári þarf giggarinn að skrá sig á virðisaukaskattsskrá RSK og skila virðisaukaskattsskýrslum annan hvern mánuð. Þar með þarf að innheimta virðisaukaskatt þegar rukkað er fyrir giggið. Við hvetjum alla okkar giggara til að koma sér upp góðu kerfi til að halda utan um og gefa út reikninga. Þetta kann að virðast flókið í fyrstu en þegar þú ert kominn af stað þá rúllar þetta nokkuð auðveldlega.

Ef þú vilt læra meira um reikningagerð og þær ráðstafanir sem atvinnugiggarar þurfa að uppfylla gagnvart Skattinum þá getur þú lesið um það í þessum bæklingi.

Hvers konar giggari ert þú?

Giggó er frábær vettvangur til að prófa sig áfram. Fyrsta skrefið er auðvitað að ná í appið og skrá sig inn. Búðu til giggara-prófíl og mátaðu þig við markaðinn. Taggaðu þá hæfni sem þú hefur fram að færa og láttu Giggó um að vakta fyrir þig spennandi verkefni. Því betur sem þú leysir giggið af hendi, því fleiri stjörnur og þeim mun betri umsagnir færðu. Giggó er þitt plattform til að byggja upp stjörnuprófíl, vinna á þínum eigin forsendum, stjórna þínum eigin tíma og skapa þér orðspor sem gerir þjónustu þína eftirsótta.

Koma svo, gerum gott gigg!