Skilmálar þessir gilda á milli Alfreðs ehf., kt. 630217-0830, Akralind 8, 201 Kópavogi, eiganda Giggó appsins (hér eftir einnig vísað til sem Alfreð eða við), og notanda um notkun á Giggó appinu (einnig vísað til appsins sem Giggó).

Sú þjónusta sem Alfreð veitir með Giggó appinu felst í vettvangi fyrir notendur til að auglýsa gigg, bjóða sig fram sem giggara, skoða birt gigg, möguleika á samskiptum auglýsenda og giggara í gegnum pósthólf og tækifæri auglýsenda til að setja fram umsagnir.

Með því að nota Giggó þá lýsir notandinn því yfir að hafa lesið, skilið og samþykkt skilmálana í heild sinni og samþykkir einnig þá vinnslu persónuupplýsinga hans sem fram fer í Giggó appinu. Óheimilt er að nota Giggó án þess að samþykkja skilmálana.

1. Skilgreiningar

Giggó appið (einnig nefnt appið) er kerfi sem notendur geta hlaðið í símann sinn og notað til þess að auglýsa eða taka að sér, svokölluð “gigg”.

Gigg er afmarkað, tímabundið verkefni sem auglýsendur vilja láta vinna fyrir sig gegn þóknun.

Notendur eru giggarar, auglýsendur og þeir sem hlaða appinu niður aðeins til þess að skoða það.

Giggó prófíll er svæði í appinu sem inniheldur upplýsingar um notendur sem skrá sig inn í appið til þess að vera auglýsendur og giggarar. Notendur þurfa að fylla út lágmarksupplýsingar, s.s. fullt nafn og netfang. Notendur sem vilja bæði auglýsa gigg og vera giggarar gera það með sama prófílnum.

Giggarar eru notendur Giggó appsins sem skrá sig inn í appið með netfangi og fylla út lágmarksupplýsingar til þess að geta verið giggarar og tekið að sér gigg fyrir auglýsendur.

Auglýsendur eru notendur Giggó appsins sem skrá sig inn í appið með netfangi og fylla út lágmarksupplýsingar til þess að geta auglýst gigg.

Pósthólf er spjallsvæði í Giggó appinu sem auglýsendur og giggarar nota til þess að eiga samskipti sín á milli um tiltekið gigg, þ.e. á milli eins auglýsanda og eins giggara. Nýtt spjallsvæði opnast fyrir hvert gigg, jafnvel þótt auglýsandi og giggari hafi átt samskipti áður um annað gigg.

2. Virkni Giggó appsins

Eftir að notendur hafa hlaðið Giggó appinu niður í símtæki sitt geta þeir, án þess að skrá sig inn í appið og skoðað birt gigg. Til þess að geta auglýst gigg eða boðið sig fram sem giggara þurfa notendur að skrá sig inn í appið og fylla út Giggó prófíl.

Notendur skrá sig inn í Giggó appið með netfangi og sex stafa kóða sem þeir fá sendan á netfangið. Notendur geta sjálfir skráð sig út úr appinu og til þess að skrá sig aftur inn nota þeir sama netfangið og nýjan kóða sem þeir fá sendan í hvert sinn sem þeir skrá sig inn í appið. Skrái notendur sig ekki út sjálfir, gerist það sjálfkrafa 90 dögum eftir síðustu innskráningu.

2.1. Skráning upplýsinga í Giggó prófíl.

Við fyrstu innskráningu stofnast sjálfkrafa prófíll sem inniheldur netfangið og óútfyllta reiti, sumir eru skyldureitir og aðrir valkvæðir. Auglýsendum og giggurum er skylt að auðkenna sig með fullu og réttu nafni og birtist nafnið  í prófílum notenda. 

Auglýsendum er auk framangreinds skylt að skrá heiti gigga, lýsingu á gigginu, merkja við á vallista þá hæfni sem þeir telji heppilegt að giggari búi yfir, birtingartíma giggsins, þ.e. hversu lengi giggið er sýnilegt í appinu. Þá gefst þeim kostur á því að skrá staðsetningu giggsins en er það ekki skylt.

Giggarar geta merkt við hæfni sem þeir búa yfir og birtist þeim í vallista í appinu. Einnig gefst þeim kostur á að skrifa stutta lýsingu á sér sem giggara, sem getur t.d. innihaldið upplýsingar um reynslu giggarans, hæfni, menntun eða aðrar upplýsingar sem gætu reynst gagnlegar auglýsendum þegar þeir velja giggara. Giggarar sem það kjósa geta einnig sett mynd af sér í prófíl, sem og myndir eða hlekki á fyrri verkefni í svokallaða verkefnamöppu.

Notendur geta einnig staðfest auðkenningu sína með rafrænum skilríkjum.

Auglýsendum og giggurum ber að gæta þess að upplýsingar í prófíl séu réttar, nákvæmar, heillegar og áreiðanlegar, auk þess að uppfæra upplýsingarnar ef breytingar verða til þess að þær uppfylli framangreint. Notendur bera ábyrgð á prófíl sínum og geta eftir þörfum, leiðrétt eða uppfært upplýsingar í prófíl.

2.2. Prófílar notenda

Þegar notendur hafa skráð prófíl sinn í appið geta þeir valið um að vera auglýsendur, giggarar eða bæði. Auglýsing um gigg og þar með upplýsingar í prófíl auglýsenda, birtist öllum notendum appsins um leið og gigg er skráð. En prófílar giggara eru ekki sýnilegir öðrum notendum fyrr en þeir sækjast eftir giggi og þá aðeins þeim auglýsendum sem giggarar sækjast eftir giggi hjá.

Með því að skrá prófíl þá fá notendur, bæði auglýsendur og giggarar, aðgang að Giggó og þar með hefur Alfreð efnt samning um þjónustu sína varðandi notkun á Giggó. Notendur gera sér grein fyrir því og staðfesta með notkun sinni að eftir að þjónustan hefur verið veitt verður ekki fallið frá samningi við Alfreð ehf. um hana.

2.3. Samningaviðræður notenda

Í Giggó er miðað við að upplýsingar í prófíl séu ekki settar fram sem skuldbindandi tilboð heldur sem hvatning til gagnaðila um að gera tilboð eða hefja með öðrum hætti viðræður um gerð samnings um gigg, ef annað er ekki tekið fram. Ekkert útilokar að auglýsendur eða giggarar ræði við fleiri en einn aðila um gigg nema þeir skuldbindi sig sérstaklega til annars.

Samningaviðræður geta farið fram í pósthólfi notenda og geta auglýsendur átt í samningaviðræðum við eins marga giggara og þeir vilja um tiltekið gigg. 

Ef samningaviðræður leiða til þess að giggari og auglýsandi eru tilbúnir að gera samning ýtir auglýsandi á “samþykkja” hnappinn. Þá fær giggari skilaboð um að boð hans í giggið hafi verið samþykkt og er þá gert ráð fyrir að þeir hafi náð samningum um gigg. Staðan “gigg í gangi” birtist í pósthólfi þeirra. Aðrir giggarar sem einnig áttu í samningaviðræðum um giggið fá skilaboð um að boð þeirra í giggið hafi verið afþakkað, giggið er ekki lengur sýnilegt öðrum notendum appsins og ekki er hægt að bjóða í það.

Þegar giggi er lokið skulu auglýsendur loka gigginu og geta veitt giggurum endurgjöf, sbr. kafli 2.4. Hafi auglýsendur ekki lokað gigginu þegar skráður birtingartími þess er liðinn fá þeir áminningu í pósthólfið sitt um að gera það.

Notendur gera sér grein fyrir og samþykkja með notkun kerfisins að Alfreð er ekki aðili að samningi á milli þeirra, þ.e. auglýsanda og giggara, né kemur fram sem fulltrúi eða umboðsmaður aðila. Þá eru notendur, hvorki giggarar né auglýsendur, fulltrúar, umboðsmenn eða starfsmenn Alfreðs heldur sjálfstæðir aðilar sem koma fram og gera samninga í eigin nafni.

Samningaviðræður, samningar og efndir samninga eru alfarið á vegum og ábyrgð notenda, þ.e. auglýsenda og giggara. Þá ber notendum sjálfum að tryggja sér sönnun fyrir gerð, efni og framkvæmd samninga, þar með talið að sá sem kemur fram fyrir hönd notenda hafi viðeigandi umboð til þess að skuldbinda hann. 

Notendur gera sér grein fyrir því og samþykkja með notkun kerfisins að Alfreð ber ekki ábyrgð á samningaviðræðum eða samningum sem auglýsendur og giggarar gera sína á milli. Þá ber Alfreð ekki ábyrgð á framkvæmd eða efndum samninga hvorki af hálfu giggara eða auglýsenda.

2.4. Stjörnugjöf og umsagnir

Þegar auglýsendur merkja gigg “klárað” gefst þeim tækifæri til að veita endurgjöf, þ.e. umsögn og einkunnagjöf (1-5 stjörnur) um upplifun þeirra af samstarfinu við giggara.

Endurgjöfin birtist strax í prófíl giggara og er markmiðið að aðstoða notendur við að taka upplýstar ákvarðanir við mat á því hvort þeir vilji þiggja þjónustu tiltekins giggara.

Ætlast er til að endurgjöf sé sönn, áreiðanleg og gagnleg fyrir notendur, auk þess að uppfylla eftirfarandi reglur um endurgjöf.

Endurgjöf skal:

  • Vera hlutlæg, málefnaleg, tengjast raunverulegu giggi, þ.e. því giggi sem auglýsendur og giggarar gerðu samning um, og innihalda viðeigandi upplýsingar.

  • Endurspegla raunverulega upplifun viðkomandi auglýsanda af samstarfinu.

  • Lýsa samstarfi auglýsenda og giggara með málefnalegum hætti, s.s. hvað stóðst væntingar og hvað hefði mátt vera öðruvísi, þannig að slíkt sé hjálplegt fyrir aðra notendur.

Endurgjöf skal ekki:

  • Byggð á hótunum, þvingunum eða hvers kyns misneytingu.

  • Veitt gegn loforði um greiðslu eða annan ávinning.

  • Sett fram með villandi hætti eða til þess að gefa ranga mynd af notendum, samstarfi aðila eða með það að markmiði að skaða hagsmuni keppinautar viðkomandi.

  • Innihalda trúnaðarupplýsingar sem samkvæmt lögum eða eðli máls á ekki opinbert erindi.

  • Fela í sér hatursáróður, ólöglegt, ósiðlegt eða óviðeigandi efni.

Alfreð les ekki yfir endurgjöf né sannreynir réttmæti endurgjafar auglýsenda. Því gera notendur sér grein fyrir að veitt endurgjöf kann að vera villandi eða röng og hún stafar ekki frá Alfreð.

Leiki vafi á getur Alfreð ákveðið hvort endurgjöf brjóti gegn skilmálum þessum og gripið til viðeigandi ráðstafana. Ef notendur verða varir við umsagnir sem þeir telja brjóta gegn reglum þessa skilmála geta þeir haft samband við okkur á [email protected].

Alfreð áskilur sér rétt til að fjarlægja endurgjöf, einkum umsagnir, en þó einungis ef við teljum að um skýr brot á skilmálum þessum sé að ræða. Jafnframt áskilur Alfreð sér rétt til að takmarka, loka eða fjarlægja aðgang notenda að Giggó appinu, ef brot á skilmálum teljast alvarleg. Notendur samþykkja með notkun á Giggó að hlíta niðurstöðu Alfreðs varðandi mat á því hvort fjarlægja beri endurgjöf og takmarka, loka eða fjarlægja aðgang þeirra að appinu.

Auglýsendur geta ávallt óskað eftir því að endurgjöf sem þeir hafa sjálfir veitt giggurum verði fjarlægð.

3. Persónuupplýsingar

Persónuupplýsingar sem notandi skráir í Giggó eru geymdar með rafrænum hætti í appinu. Alfreð er ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinga sem notendur skrá í Giggó.

Í persónuverndarstefnu Giggó má finna nánari upplýsingar um réttindi og skyldur við vinnslu persónuupplýsinga í Giggó appinu.

Notendur gera sér grein fyrir því að Alfreð ehf. ber ekki ábyrgð á þeim upplýsingum sem þeir kunna að veita öðrum notendum vegna samningaviðræðna eða samninga. Notendur sem vinna með persónuupplýsingar annarra notenda, s.s. vegna samningagerðar, þannig að þeir ákveða sjálfir framkvæmd, tilgang og aðferð vinnslunnar, eru sjálfstæðir ábyrgðaraðilar slíkrar vinnslu og bera þær lagaskyldur sem af því leiðir.

4. Greiðsla fyrir notkun á þjónustu Giggó appsins

Notendur sem auglýsa gigg, þ.e. auglýsendur, samþykkja með notkun Giggó að greiða Alfreð fyrir þá þjónustu sem Alfreð veitir í samræmi við gildandi verðskrá Giggó sem er aðgengileg á vefsíðunni www.giggo.is og þeir hafa getað kynnt sér.

Alfreð er heimilt að gera breytingar á verðskrá Giggó en tilkynna skal notendum um slíkar breytingar. Verðskrárbreyting skal tilkynnt á sama hátt og breytingar á skilmálum þessum.

Fyrst um sinn geta notendur notað Giggó án greiðslu endurgjalds fyrir þjónustuna. Áður en byrjað verður að taka greiðslu fyrir þjónustuna verður skilmálum þessum og verðskrá Giggó breytt og tilkynnt um slíkt með þeim hætti sem á við um breytingar á skilmálunum.

5. Skyldur notenda

Notendum er skylt að skrá eingöngu réttar, sannar og fullnægjandi upplýsingar í Giggó.

Notandi er ábyrgur fyrir því efni sem hann veitir aðgang að og setur í prófíl sinn eða pósthólf í Giggó óháð því í hvaða formi er um að ræða, s.s. skjöl, myndir, hljóð- eða myndupptökur. Jafnframt ber notandi ábyrgð á því að ganga úr skugga um að hann eigi eða hafi heimild til þess að nota það efni, sbr. framangreint, sem hann veitir aðgang að og setur á prófíl sinn eða í pósthólf. Þá samþykkir notandi að með því að setja slíkt efni, sbr. framangreint, í prófíl sinn eða pósthólf þá veitir hann Alfreð og Giggó appinu ótakmarkaðan rétt til að nota slíkt efni og veita þriðju aðilum aðgang að því um allan heim, m.a. til að geyma, nota, afrita, breyta, þýða, gera afleidd verk, dreifa og birta með hvers konar hætti. Að því marki sem slíkt efni inniheldur persónuupplýsingar skulu þær einungis nýttar í samræmi við viðeigandi reglur um persónuvernd.

Sum störf njóta lögverndar og í slíkum tilfellum mega aðeins þeir sem til þess hafa opinber leyfi stunda starfið og kenna sig við starfsheitið. Alfreð ehf. fer ekki yfir upplýsingar um menntun, notkun starfsheita eða annað sem notendur skrá í appið og tekur enga ábyrgð á birtu efni notenda.

Giggarar og auglýsendur bera sjálfir ábyrgð á því að fara eftir lögum sem við geta átt vegna gigga, s.s. lögum um handiðnað nr. 42/1978, lagaákvæða um vinnu barna og unglinga, sbr. lög nr. 46/1980, lögræðislögum nr. 71/1997 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Jafnframt bera notendur ábyrgð á því að þeir hafi heimild til samningsgerðar og háttsemi þeirra og samningar brjóti ekki gegn betri rétti þriðja manns.

Notendur skuldbinda sig til að eiga samskipti við Alfreð og aðra notendur í samræmi við tilgang Giggó, samkvæmt skilmálum þessum og í samræmi við lög. Þá skuldbinda notendur sig einnig til þess að nota appið á viðeigandi hátt og í samræmi við góða siði og venjur.

Óheimilt er að nota Giggó til að auglýsa efni sem er óviðkomandi giggi eða þjónustu giggara.

Óheimilt er að dreifa hatursáróðri, ólöglegu eða óviðeigandi efni í gegnum Giggó. Leiki vafi á getur Alfreð ákveðið hvort efni hafi að geyma hatursáróður, sé ólöglegt, ósiðlegt eða óviðeigandi og gert viðeigandi ráðstafanir.

Notanda er óheimilt að:

  1. draga út eða endurnýta í heild eða að hluta gögn eða upplýsingar sem safnað er úr gagnagrunninum í þeim tilgangi að gera slíkt hluta af öðrum gagnagrunnum ("skjáskröpun");

  2. endurgera hugbúnaðinn sem Giggó appið byggir á á nokkurn hátt, þ.m.t. að gera afrit;

  3. dreifa hugbúnaðinum;

  4. birta eða gefa út hugbúnaðinn;

  5. þýða, aðlaga, raða eða breyta hugbúnaðinum á nokkurn hátt;

  6. hnýsast í innviði (e. reverse engineering), afkóða, taka sundur eða reyna að komast yfir forritunarkóðann á annan hátt;

  7. reyna að brjóta öryggisvarnir forritsins eða ráðast á forritið á annan hátt;

  8. reyna að fá aðgang að hlutum appsins sem notendur hafa ekki rétt á að fá aðgang að eða er ekki með leyfi frá Alfreð til þess;

  9. koma í kring yfirálagi á þjónustuna með sjálfvirkninotkun;

  10. að öðru leyti aðhafast eitthvað sem getur skaðað virkni Giggó eða nota Giggó í ósamræmi við tilgang þess, eða;

  11. brjóta gegn hugverkaréttindum Alfreðs.

Notanda er skylt að tilkynna Alfreð um öryggisbresti í appinu sem hann kann að verða var við með notkun appsins.

Notandi er ábyrgur fyrir því að gæta að öryggi og trúnaði varðandi innskráningaraðgang sinn. Í því skyni að koma í veg fyrir að brotist sé inn í aðgang notanda er notandi skyldugur til þess a.m.k. að:

  1. verja öll tæki gegn misnotkun;

  2. nota ekki aðgangsauðkenni sem notuð eru af þriðja aðila;

  3. vernda aðgangsauðkenni sín; og

  4. koma í veg fyrir misnotkun aðgangsauðkennis.

Komi upp galli við notkun á Giggó appinu geta notendur haft samband við Alfreð. Notendum er ljóst og samþykkja að það gæti tekið nokkurn tíma að meta gallann og hvaða þjónusta er nauðsynleg.

Notendur samþykkja að Alfreð geti nýtt upplýsingar sem skráðar eru inn í appið til þess að vinna ýmis konar ópersónugreinanlegar heildarupplýsingar tengdar tilgangi appsins og “giggmarkaðnum”.

6. Takmörkun ábyrgðar

Notendur gera sér grein fyrir því að Giggó er vettvangur fyrir auglýsendur og giggara til að ná saman um möguleg verkefni. Alfreð ber ekki ábyrgð á þeim árangri sem næst með því að nota appið. Þá ber Alfreð ekki ábyrgð á samningaviðræðum eða samningum auglýsenda og giggara né veittri endurgjöf, sbr. kafli 2.

Notendur gera sér grein fyrir að Alfreð ber ekki ábyrgð á réttmæti eða áreiðanleika þeirra upplýsinga sem notendur skrá í Giggó, s.s. um hæfni giggara eða lýsingu á giggi. Þá ber Alfreð ekki ábyrgð á greiðsluhæfi auglýsanda eða verkhæfni giggara. Notandi gerir sér grein fyrir að Alfreð kannar ekki sérstaklega bakgrunn eða tilvist notenda né réttmæti eða lögmæti þeirra upplýsinga sem notendur setja fram. Þannig veitir skráning í Giggó enga viðurkenningu, meðmæli eða ábyrgð af hálfu Alfreðs á einstökum notendum.

Notendur gera sér grein fyrir því að Alfreð ber ekki ábyrgð á meðferð þeirra upplýsinga sem þeir kunna að veita öðrum notendum vegna samningaviðræðna eða samninga. Jafnframt ber Alfreð ekki ábyrgð á mati notenda eða notkun á upplýsingum frá öðrum notendum. Ef í prófíl notanda eða pósthólfi eru tenglar á aðrar vefsíður eða annars konar samskiptamiðla, þá ber Alfreð enga ábyrgð á efni eða starfsemi slíkra tengla eða samskiptamiðla.

Notendur gera sér grein fyrir því að Alfreð ber ekki ábyrgð á útgjöldum eða öðrum kostnaði eða tjóni sem notendur kunna að verða fyrir í samskiptum við hvorn annan eða vegna samningsgerðar eða samninga, s.s. vegna skemmda, vanefnda eða svika.

Alfreð ber ekki ábyrgð á því ef tilkynningar frá Giggó reynast gallaðar, þeim seinkar eða ef notandinn fær þær ekki.

Hægt er að þýða upplýsingar í Giggó á milli tungumála, en slík þýðing er sjálfvirk, og tekur Alfreð enga ábyrgð á réttleika, nákvæmni eða gæðum þýðingar. Ákveði notandi að byggja ákvarðanir á þýðingu þá gerir hann það á eigin ábyrgð.

Alfreð er ekki ábyrgt fyrir óþægindum eða skemmdum sem kunna að verða vegna bilana eða galla í Giggó, svo sem vélrænni bilun, tæknilegum mistökum, bilun í hugbúnaði, kerfisuppfærslu, galla í stýrikerfum, netkerfum eða fjarskiptakerfum eða vegna rofs á þjónustu Giggós vegna rafmagnsbilunar eða truflana á fjarskiptaþjónustu.

Alfreð er ekki ábyrgt vegna óviðráðanlegra atvika (force majeure) sem geta leitt til þess að Giggó verður óaðgengilegt, svo sem vegna ákvarðana stjórnvalda, náttúruhamfara, verkfalla (þ.m.t. fyrirhuguð verkföll) eða verkbanna, uppreisna, uppþota, skemmdarverka, hryðjuverka eða stríða eða vegna annarra svipaðra atburða sem ekki er hægt að koma í veg fyrir eða ráða við með venjulegum hætti af hálfu Alfreðs.

Ef Giggó bilar eða liggur niðri, kann þjónustan að verða tímabundið óaðgengileg fyrir notendur, og verður Alfreð ekki gert að greiða bætur vegna mögulegs tjóns sem af slíku kynni að leiða fyrir notendur.

Notandi er meðvitaður um og samþykkir þær ábyrgðartakmarkanir sem tilgreindar eru í þessari grein.

7. Hugverkaréttur

Alfreð ehf. er höfundur Giggó appsins og eru áskilinn öll réttindi höfundar slíks kerfis í samræmi við ákvæði höfundaréttarlaga nr. 73/1972. Þá er Alfreð ehf. eigandi vörumerkisins Giggó.

Allt efni í Giggó appinu, svo sem hönnun, texti, grafík, myndir, ljósmyndir, upplýsingar, vörumerki Giggó, tákn, tölvuforrit, frumkóði, gagnasöfn og önnur hugverk tilheyra eingöngu Alfreð eða samstarfsaðilum og dótturfélögum og njóta verndar laga um höfundarrétt og eftir atvikum annarra laga varðandi hugverkaréttindi. Óleyfileg notkun, þ.m.t. afritun, fjölföldun eða dreifing á þessu efni, hvort sem er að hluta eða í heild, kann að brjóta gegn lögum og er óheimil án leyfis Alfreðs. Með því að samþykkja þessa skilmála og nota appið veitir Alfreð notanda ekki leyfi til að nota hugverkaréttindin á nokkurn annan hátt en sem nauðsynlegt getur talist til að vera giggari og auglýsandi í Giggó appinu.

8. Brot á skilmálum

Verði notendur uppvísir að alvarlegum brotum á skilmálum þessum eða ef þeir misnota Giggó á einhvern hátt áskilur Alfreð sér rétt til þess að grípa til viðeigandi úrræða, svo sem með því að loka aðgangi þeirra fyrirvaralaust, hvort sem er tímabundið eða ótímabundið. Sama gildir ef notandi hagar sér með ólögmætum, ósiðlegum eða óviðeigandi hætti. Notandi gerir sér grein fyrir því og samþykkir að í slíkum tilvikum á hann ekki rétt til bóta vegna mögulegs tjóns.

Það telst ávallt alvarlegt brot á skilmálum þessum ef notandi:

  1. sendir eða á annan hátt deilir upplýsingum úr Giggó sem brjóta gegn lögum eða skilmálunum eða gætu skaðað velvild, orðspor og vörumerki Alfreðs eða Giggó;

  2. brýtur gegn skyldum sínum samkvæmt skilmálum þessum, s.s. skyldum samkvæmt 2, 4., 5. og 7. kafla þessara skilmála.

  3. skráir sig inn í Giggó, býr til prófíl eða auglýsingu um gigg sem byggir á óleyfilegri skráningu samkvæmt þessum skilmálum, er villandi eða gerð í ólögmætum eða sviksamlegum tilgangi.

  4. dreifir hatursfullu, ólöglegu eða óviðeigandi efni í gegnum Giggó.

Alfreð áskilur sér rétt til að fjarlægja alla hatursorðræðu, ólöglegt, ósiðlegt og óviðeigandi efni úr appinu án fyrirvara. Það sama á við um efni sem hamlar virkni appsins.

Notendur bera ábyrgð á því að efni sem þeir setja í Giggó sé í samræmi við lög og áskilur Alfreð sér rétt til þess að fjarlægja efni úr appinu sem grunur kann að leika á að brjóti í bága við lög. Með því að samþykkja skilmála þessa samþykkja notendur að hlíta mati Alfreðs hvað þetta varðar. Leiki grunur á að notandi hafi viðhaft ólögmæta háttsemi áskilur Alfreð sér rétt til að upplýsa viðeigandi yfirvöld um slíkt.

Verði efni fjarlægt verður notandi upplýstur um ástæður þess nema slík upplýsingagjöf kunni að vera andstæð lögum, spilla rannsókn á ólögmætu athæfi eða myndi skaða lögmæta hagsmuni þriðja aðila.

9. Breytingar á skilmálum

Alfreð áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálunum, eftir því sem þörf er á. Alfreð mun tilkynna um skilmálabreytingar í gegnum netfang notenda og á www.giggo.is. Með því að nota Giggó eftir tilkynningu um skilmálabreytingu samþykkir notandi breytinguna. Hafni notendur breyttum skilmálum telst sú höfnun jafngilda uppsögn á þjónustu Giggó.

10. Uppsögn

Samningur Giggó og notanda skv. skilmálum þessum er í gildi þar til annar hvor aðilinn segir honum upp.

Notendur hafa rétt til þess að segja upp þjónustu vegna Giggó vilji þeir ekki nota hana lengur. Notendur segja upp þjónustu appsins með því að eyða prófílnum sínum. Uppsögn notenda tekur gildi strax og notendur eyða prófíl.

Alfreð hefur rétt á því að segja notendum appsins upp þjónustu, t.d. ef þeir brjóta gegn skilmálum þessum eða slíkt er nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna Alfreðs eða þriðju aðila. Við uppsögn berst notendum tilkynning, aðgangi þeirra er lokað og prófíllinn tekinn úr birtingu í appinu.

Farið er með persónuupplýsingar í kjölfar uppsagnar í samræmi við Persónuverndarstefnu Giggó hvort sem uppsögn stafar frá notanda eða Alfreð.

11. Eigendaskipti að Giggó eða Alfreð ehf.

Með notkun Giggó samþykkja notendur að heimilt sé að flytja eignarhald Alfreðs ehf., og þ.m.t. Giggó appsins, eða eingöngu eignarhald á Giggó appinu, að hluta eða öllu leyti til þriðja aðila ásamt öllum þeim upplýsingum sem Giggó appið hefur að geyma, án sérstaks samþykkis notanda. Sama gildir um hvers konar önnur lagaleg eigendaskipti á Alfreð ehf. og þ.m.t. Giggó appinu, eða eingöngu á Giggó appinu. Yfirfærsla eignarhalds eða önnur lagaleg eigendaskipti að því er varðar Alfreð ehf., þ.m.t. Giggó appinu, eða eingöngu á Giggó appinu, að hluta eða öllu leyti, hefur engin áhrif á gildi skilmála þessara eða réttindi og skyldur aðila samkvæmt skilmálunum. Tilvísun til Giggós eða Alfreðs ehf. í skilmálunum er tilvísun til appsins eða til félagsins með því eignarhaldi sem er til staðar á hverjum tíma.

12. Gildandi lög og lögsaga

Um réttindi og skyldur samningsaðila sem tengjast notkun á Giggó eða leiða af skilmálum þessum fer samkvæmt íslenskum lögum.

Rísi ágreiningsmál milli aðila samnings þessa vegna notkunar á Giggó eða vegna ákvæða skilmálanna skal slíku máli ráðið til lykta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur nema annað sé tekið fram. Notandi sem er neytandi á þess einnig kost að beina kvörtun vegna þjónustu sem Giggó veitir til Kærunefndar um vöru- og þjónustukaup (kvth.is)

13. Tungumál og samskipti

Skilmálar þessir eru á íslensku og ensku. Ef misræmi er á milli tungumálaútgáfa skilmálanna gilda skilmálar á íslenskri tungu.

Öll samskipti milli Alfreðs og notenda skulu vera á íslensku eða ensku. Þau skulu einkum eiga sér stað með rafrænum hætti í gegnum Giggó appið.

Kveði einhver ákvæði skilmálanna eða ákvæði laga sérstaklega á um skrifleg samskipti, er skriflegt pappírsform ekki nauðsynlegt, ef Alfreð hefur gert ráðstafanir gagnvart notanda um skrifleg samskipti á netfang hans með einföldum rafrænum undirskriftum eða í gegnum Alfreð.

Hafi notandi ábendingar, athugasemdir eða kvartanir fram að færa varðandi Giggó getur hann komið þeim á framfæri á [email protected] Leitast verður við að meðhöndla kvartanir innan 30 daga.

14. Gildistími

Skilmálarnir eru gefnir út af Alfreð ehf. og gilda frá 02.01.2024.