Topp 10 gigg til að bjarga brúðkaupinu

02.01.2024

Varstu að finna betri helminginn? Eða ert þú betri helmingurinn og langar að staðfesta það? Þið getið búið til sameiginlega Facebook-síðu eða látið pússa ykkur saman. Giftingar og brúðkaupsveislur eru stórviðburðir. Stundum er gott gigg lykillinn að því að gera viðburðinn ógleymanlega upplifun fyrir brúðhjónin og veislugesti.

Undirbúningur sem segir sex

Nei, við erum ekki að tala um æsandi undirföt. Brúðkaupsveisla er spurning um góðan undirbúning. Til að allt gangi smurt þarf að hugsa fyrir mörgum smáatriðum. Þá er gott að hafa Giggó við höndina. Hér eru tíu gigg sem geta hjálpað þér að gera stóra daginn ógleymanlegan.

1. Athöfnin

Prestar voru lengi mest teknir í giftingabransanum. Á seinni árum hafa athafnastjórar tekið að sér að splæsa saman fólk með ólíkar lífsskoðanir. Þetta er eina giggið sem talist getur ómissandi á þessum lista. Auglýstu giggið og reddaðu stóra deginum með góðum fyrirvara.

2. Viðburðarstjórinn

Stundum er púsl að raða saman hinum fullkomna brúðkaupsdegi. Við höfum mismikla skipulagshæfileika. Kannski er ódýrasta lausnin að fá vana manneskju til að raða öllu snyrtilega saman. Eða bara láta þetta ráðast.

3. Bílstjórinn

Það er dýrt að taka strætó nútildags og gangan frá næstu stoppistöð getur verið löng í spariskónum. Betra að fá traustan bílstjóra í giggið, einhvern sem á almennilega drossíu, stífbónaða og glansandi í stíl við tilefnið.

4. Ljósmyndarinn

Brúðhjón þurfa að hanga saman í ramma á stofuveggjum um allan bæ um ókomin ár. Þetta augnablik þarf að vera fallega útfært, með góðri lýsingu og í fókus. Brúðkaupsljósmyndarar eru sérfræðingar í að stilla fólki upp og ramma í fallega minningu.

5. Veislustjórinn

Veislustemmingin stendur og fellur með veislustjóranum. Ef þú ert með hæfileikabúnt í vinahóp eða fjölskyldu sem ræður við djobbið: Til hamingju! Ef ekki þá er vert að finna veislustjóra í giggið, rísandi stjörnu eða reynslubolta sem kann að lesa salinn.

6. Blóma- og borðskreytingar

Blóm geta gert kraftaverk fyrir veislusali ekki síður en borðskreytingar. Til að veislusalurinn lúkki sem best er ekki vitlaust að fá faglega aðstoð, fagurkera eða blómaskreytimeistara sem sér um að allt komi heim og saman.

7. Matur og drykkur

Ef þú ert ekki með meistarakokk í fjölskyldunni þá er alltaf hægt að finna giggara í djobbið. Settu inn smáauglýsingu á Giggó og finndu annálaðan sælkera sem kann að skipuleggja og halda utan um stærri veislur. Reddaðu gigginu allt frá fordrykk að tertunni í lokin.

8. Þjónustufólk

Hver á að sjá um þjónustuna? Stilltu upp sterku liði til að skera steikina, bera á borð, taka við yfirhöfnum eða deila út fordrykk og snittum. Sjálfsafgreiðsla á barnum getur verið skemmtilegt hópefli en líka baneitraður kokteill og uppskrift að slagsmálum. Alltaf betra að fá barþjón í giggið.

9. Skemmtikrafturinn

Fyrir óvana skemmtikrafta getur verið freistandi að slá á sviðsskrekkinn með aðeins of mörgum fordrykkjum. Fjölskylda og vinir geta verið frábær uppspretta skemmtiatriða en reyndur skemmtikraftur getur verið kærkomin viðbót við gleðina í veislunni.

10. Plötusnúðurinn

Tónlistarsmekkur er afar breytilegur milli kynslóða og einstaklinga. Það að halda uppi fjörinu eftir veisluna kallar á skynbragð og smekk svo að flestir fái að njóta stundarinnar. Þá er um að gera að munstra þokkalegan skífuþeytara í giggið, reyndan plötusnúð sem kann að lesa salinn.

Ást er … gott gigg

Það má finna ýmsar ástæður til að láta pússa sig saman. Það má gera í kyrrþey. Stinga af saman. Halda lítið fjölskylduboð eða efna til risaveislu.  Ástin er samt mikilvægasta innihaldsefnið í hjónabandinu. Með aðeins meiri ást þá lukkast allt á endanum og með tímanum vaknar þörf fyrir annarskonar aðstoð: flutningsþrif, barnapössun og jafnvel hjónabandsráðgjöf. En það er seinni tíma gigg. Til hamingju með daginn.